Tökum frá

sunnudaginn 7. desember.  Þá ætlum við að hafa jólamúsíkfund og bjóða ömmum og öfum, systkinum og vinum, og sýna hvað við höfum lært. Nánar skipulagt síðar.


Píanóstilling

Píanóstillarinn Stefán Birkisson er væntanlegur n.k. þriðjudag, 7. október. Þeir sem voru búnir að panta stillingu ættu að vera í viðbragðsstöðu, það verður væntanlega hringt í þá um helgina.

Bókin

Suzuki tónlistaruppeldi eftir Kristin Örn Kristinsson er nú fáanleg á Bókasafninu. Hún er skyldulesning fyrir foreldra og holl fyrir alla uppalendur.

Fyrsta vikan

fór vel af stað. Búin að hitta flesta foreldra og nemendur og búin að kaupa fiðlur.  Góður og skemmtilegur hópur, en það er enn pláss fyrir fleiri, og sérstaklega vantar stráka!

Vantar fiðlur

í stærðinni 1/8. Í dag var fiðlumátun og kom í ljós að þetta er stærðin sem vantar. Ef einhver er með ódýrar, notaðar fiðlur í þessari stærð til sölu, þá er markaður hér!!! Ég fer í verslunarferð til Reykjavíkur á miðvikudaginn.

Nú er kennsla að hefjast, sumir eru byrjaðir, aðrir byrja nú í lok vikunnar. Örfá pláss eru enn laus, fyrir þá sem eru að hugsa sig um.


Suzuki og móðurmálsaðferðin

Shinichi Suzuki fæddist í Nagoya í Japan árið 1898. Faðir hans rak verksmiðju sem smíðaði fiðlur. Suzuki var orðinn 17 ára þegar hann byrjaði að spila á fiðlu. Það sýnir okkur að menn geta náð allgóðum árangri, jafnvel þótt þeir byrji seint. Tuttugu og tveggja ára fór Suzuki til Berlínar og dvaldist þar í átta ár við tónlistarnám. Þar kynntist hann konuefninu sínu og þau giftust. Suzuki kynntist jafnframt mörgum frægum og frábærum listamönnum og drakk í sig allt sem hann sá og heyrði. Hann sóttist eftir að uppgötva leyndardóm listarinnar. Þegar Suzuki, tuttugu og fjögurra ára, heyrði Klarinettukvintett eftir Mozart varð hann fyrir eins konar trúarreynslu: Líf okkar er því aðeins þess virði að því sé lifað ef við elskum og huggum hvert annað. Þarna kom leyndardómurinn sem Suzuki leitaði að í ljós. Ef tónlistarmaður vill verða sannur listamaður verður hann fyrst að þroska persónuleika sinn.

Faðir Suzukis hafði kennt syni sínum að næstum allt væri mögulegt með nógu mikilli iðjusemi og þolinmæði og aldrei mætti missa sjónar á takmarkinu. Suzuki setti sér ekki einungis það markmið að þroska sjálfan sig, framtíðarsýn hans náði til alls mannkyns. Markmið hans var heimsfriður og hamingja allra manna. Leiðin að því markmiði taldi hann vera kennslu ungra barna og það varð ævistarf hans. Árið 1945 hóf hann að nota óvenjulega aðferð sína við fiðlukennslu markvisst og tuttugu árum seinna tók móðurmálsaðferðin að breiðast út um heiminn. Shinichi Suzuki lést 26. janúar 1998, á hundraðasta aldursári.

“Talent is no accident of birth”  - þannig hefst formáli bókarinnar Nurtured by Love. Suzuki heldur því fram að fólk sé við fæðingu líkt og óskrifað blað. Við fæðumst með hæfileikann til að læra, og það er undir umhverfinu komið hvernig aðrir hæfileikar þroskast. Það eru örlög hvers manns að geta ekki valið sér foreldra, segir Suzuki. Ef aðrir hafa ekki séð um að gefa hæfileikum okkar tækifæri til að þroskast á unga aldri verðum við að sjá um það sjálf síðar.

            Suzuki er frægur sem fiðlukennari, en hann hafði ekki síður áhuga á því hvernig nemendur hans gætu orðið betri manneskjur. Það var aðalatriðið. Suzuki var ekki í vafa þegar kom að mikilvægustu spurningum lífsins. Hver er tilgangur lífs okkar? Leitin að kærleika, sannleika, dyggð og fegurð.

Móðir nokkur spurði Suzuki hvort drengurinn hennar ætti eftir að ná langt. Honum líkaði ekki spurningin. Þú átt ekki að vonast eftir að barnið þitt verði hálaunaður fagmaður. Maður með gott hjartalag mun finna hamingjuna. Það sem foreldrar eiga að hugsa um er að ala börnin sín upp til að verða göfugar mannskjur. Það nægir. Ef þetta er ekki meginmarkmiðið gæti barnið lent á rangri braut. ,,Sonur þinn spilar mjög vel á fiðlu, en við verðum einnig að reyna að fullkomna hug hans og hjarta,” sagði Suzuki við þessa konu.


Móðurmálsaðferðin 

Lykilorðin eru:

Hlustun

Hrós

Endurtekning – æfing

Byrja snemma – ung börn eru næmust

Suzuki hafði verið beðinn að kenna fjögurra ára gömlum dreng að spila á fiðlu og var að velta fyrir sér hvernig það væri hægt þegar hugmyndinni laust niður. Öll japönsk börn tala japönsku. Hvílík uppgötvun! Talmál er mjög flókið fyrirbæri. Öll heilbrigð börn geta lært að tala. Af því getum við dregið þá ályktun að lítil börn geti gert flókna hluti. Suzuki velti fyrir sér hvernig börn lærðu að tala og ákvað að beita svipaðri aðferð við að kenna þeim að spila á hljóðfæri

Lausnarorðið hlaut að vera þjálfun – æfing og endurtekning. Minnisþjálfun er nauðsynleg. Hæfileikar eru áunnir og einn getur af sér annan, sagði Suzuki.

 

Fyrst hlustun – Börn hlusta á móðurmál sitt alveg frá því þau eru í móðurkviði.

Þegar barnið álpast til að segja fyrsta orðið – ,,mama” – þá bregðast foreldrarnir við með miklum fögnuði. (Það heitir ,,jákvæð styrking” á sálfræðimáli – en hrós í venjulegu máli).

Barnið fær mikla athygli og hrós fyrir fyrsta orðið. Það er eftirsóknarvert að fá athygli og hrós, svo barnið endurtekur fyrsta orðið aftur og aftur. Takið eftir því að ,,mamma” er líkt í flestum tungumálum. Ekki er víst að barnið viti hvað það er að segja í fyrstu atrennu. Það tekur hins vegar eftir því að mamma bregst mjög vel við þessu orði. Síðan er barninu oftast kennt að segja ,,pabbi”. Það fær líka frábær viðbrögð við því. Fyrstu orðin eru endurtekin oft og æfð vel áður en þau næstu koma. Það getur liðið alllangur tími frá fyrsta orðinu þangað til það næsta kemur, en síðan eykst námshraðinn. Eftir því sem maður kann fleiri orð, því auðveldara er að læra það næsta. Síðan lærir maður að búa til setningar. Lestur kemur löngu seinna, menn eru orðnir altalandi áður en menn læra að lesa.

Í tónlistarnáminu kemur fyrst hlustun. Það þarf ekki að vera þannig að menn setji sig í ákveðnar stellingar til að hlusta, tónlistin getur verið í bakgrunni á meðan verið er að gera eitthvað annað.

Síðan þarf að læra að halda á hljóðfærinu og læra að mynda tón. (Alveg eins og við æfum okkur heilmikið í að nota raddböndin og bulla áður en við lærum að tala). Fyrsta orðið okkar er Kópavogur hopp-stopp – Við æfum það mikið áður en næsta skref er tekið.

Mikilvægt er að taka lítil skref í einu og hrósa fyrir allt sem vel er gert. Að læra að spila á hljóðfæri er dálítið eins og að byggja hús. Fyrst verður að leggja grunninn, og vanda sig vel.

Börnin læra að spila eftir eyranu. Þau herma eftir kennaranum og hlustunarefninu. Nótnalestur kemur löngu seinna.

Þátttaka foreldra ræður úrslitum. Foreldri kemur með í tímana, lærir með barninu og kennir því heima.

Börn eru ekki spurð hvort þeim þyki skemmtilegt eða leiðinlegt að læra að tala. Það er sjálfsagður hlutur. Sama getur gilt um tónlist.

Þeim sem vilja kynna sér þetta betur er bent á að lesa bókina Suzuki tónlistaruppeldi eftir Kristinn Örn Kristinsson og Nurtured by Love eftir Shinichi Suzuki.

 

Innritun hafin

Auglýsing birtist væntanlega í Búkollu í þessari viku, og þar með hefst formleg innritun. Þeir sem skráðu sig í vor hafa auðvitað forgang, og verður haft samband við þá á næstunni. Menn þurfa að semja um greiðslur og væntanlegir fiðlunemendur þurfa að máta fiðlur og ákveða hvort þeir ætla að kaupa hljóðfæri eða fá leigt. Þeir sem ætla að hefja nám eftir Suzuki aðferðinni ættu að drífa í að kaupa bók 1 og disk og byrja að hlusta. Efnið fæst í Tónastöðinni í Skipholti 50d, og hægt er að fá það sent heim með einu símtali (552 1185). Sérdeilis almennilegt fólk á þeim bæ. Þar fást líka fín og vönduð hljóðfæri, ef menn eru að hugsa um það. Ég reikna með að flestir vilji hefja nám í byrjun september, en ef einhver vill byrja fyrr, þá er hægt að semja um það. Netfangið mitt er goodster@hive.is og síminn er 865 0311. Ég hlakka mikið til!

Tónlistarkennsla

Ég býð upp á kennslu í einkatímum, aðallega á píanó, fiðlu og hljómborð. Ég hef 14 ára reynslu í kennslu á píanó og 10 ára reynslu í fiðlukennslu.

Píanó

Sommerfeld_piano  Ég tek nemendur frá fimm ára aldri í píanónám, en aldurshámark er ekkert. Píanó kenni ég a.m.k. til miðstigs. Kennt verður með hefðbundinni aðferð eftir kennslukrá og boðið uppá áfangapróf fyrir þá sem þess óska. Sjálf hef ég lokið 7. stigi í píanóleik.

Fiðla

  violina3  Fiðlu kenni ég til grunnstigs, en býð sérstaklega velkomna mjög unga nemendur, því að ég mun beita kennsluaðferðum Suzukis. Þau fræði eru mjög áhugaverð. Suzuki nemendur geta byrjað þriggja ára og kenningin er sú að börn geti lært að leika á hljóðfæri á sama hátt og þau læra að tala. Það skal tekið fram að ég er ekki enn löggiltur Suzuki-kennari, en ég byrjaði að sækja nám í Suzuki kennslufræðum í hitteðfyrra. Þetta nám verður því ódýrara en gengur og gerist með Suzuki-nám. Ég mun aðstoða við útvegun á hljóðfærum, annað hvort til kaups eða leigu.

Hljómborð

Hljómborðsnám er upplagt fyrir fullorðna eða þá sem vilja bara læra að spila dálítið eftir eyranu. Líka ef maður á ekki píanó - en vill undirbúa sig fyrir píanónám. 

Skipulag

Kennsla hefst með haustinu, eftir því sem hverjum og einum hentar. Æskilegt er að ungir byrjendur komi tvisvar í viku og annað foreldrið ævinlega með. Þegar fiðlunemendur eru komnir dálítið af stað er hægt að bjóða uppá reglulega hóptíma. Þá stefni ég að því að fá hámenntaða kennara í heimsókn reglulega til að leiðbeina í hóptímum (a.m.k. tvisvar á vetri). Kennsla mun að jafnaði fara fram í Langagerði, og nemendur halda stofutónleika fyrir jól og að vori. Einnig mætti hugsa sér að fara í heimsóknir í leikskóla og dvalarheimili aldraðra til að afla nemendum reynslu í tónleikahaldi og gleðja aðra.

Þeir sem hafa áhuga á að skrá nemendur í tónlistarnám eða fá nánari upplýsingar sendi tölvupóst á goodster@hive.is eða hringi í síma 865 0311.

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Tónablogg

Höfundur

Guðrún Markúsdóttir
Guðrún Markúsdóttir
Guðrún Markúsdóttir er sjálfstætt starfandi tónlistarkennari í Rangárþingi eystra. Netfang er goodster@hive.is og sími 865 0311

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2009   tonleikar 23. mai 082
  • 2009   tonleikar 23. mai 081
  • 2009   tonleikar 23. mai 060
  • 2009   tonleikar 23. mai 053
  • 2009   tonleikar 23. mai 045

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband